Ávarp formanns


Ávarp formanns – Aðalfundur Golfklúbbsins Keilis 2025

Kæru Keilisfélagar, kæru vinir,

Það er mér mikil ánægja að líta yfir árið 2025 – ár sem var ekki aðeins viðburðaríkt og krefjandi, heldur líka eitt það metnaðarfyllsta í sögu Golfklúbbsins Keilis. Þetta var ár þar sem félagið okkar sýndi styrk sinn, starfsmenn og sjálfboðaliðar stigu upp með ótrúlegri samstöðu og völlurinn sjálfur blómstraði í höndum frábærs vallarstarfsfólks.

Félagafjölgun – Keilir stækkar og ásókn eykst

Við höfum sjaldan séð jafn mikinn kraft í aðsókn og þetta árið. Í upphafi árs vorum við 1.898 félagar, en í lok árs 2.192, sem er fjölgun um 294 félaga – og má rekja alfarið til mikillar ásóknar á Sveinskotsvöll . Þar eru nú 774 félagar skráðir en árið 2023 voru aðeins 337 félagar skráðir á Sveinskotsvöll. Biðlistinn á Hvaleyrarvöll lengist stöðugt. Í byrjun starfsársins ákvað stjórn að setja upp punktakerfi sem gefur forgang á biðlista til þeirra sem eiga maka í golfi, búa í Hafnarfirði, eru með börn sem æfa golf og/eða eru meðlimir á Sveinskotsvelli.

Þessi vöxtur sýnir að Keilir er klúbbur sem fólk vill tilheyra – og það er okkar hlutverk að halda áfram að bjóða þessum fjölbreytta hópi upp á fyrsta flokks golfupplifun.

Íþróttastarfið – kraftmikið, fjölbreytt og vaxandi

Árið 2025 var stórt stökk fram á við í íþróttastarfinu okkar. Fjöldi iðkenda jókst í öllum aldurshópum, bæði í barna- og unglingastarfi, almennu starfi og afreksþjálfun. Golfleikjaskólinn var sá stærsti sem við höfum nokkru sinni haldið, og þátttaka í mótum og æfingum jókst verulega.

Helstu atriði í íþróttastarfi 2025

  • Yfir 200 börn (6–12 ára) tóku þátt í golfleikjaskólanum – metárgangur.
  • Unglingastarfið styrktist – fleiri iðkendur en áður á reglulegum æfingum.
  • Fjöldi ungra keppenda tók þátt í mótum GSÍ og skilaði góðum árangri.
  • Kvennalið Keilis keppti á Evrópumóti golfklúbba 2025 og endaði í 12. sæti – frábær árangur á alþjóðavísu.
  • Mótaröð Keilis hélt áfram að stækka og dafna – fjölbreytt flokkaskipting tryggði þátttökumöguleika fyrir alla kylfinga.
  • Betri umgjörð og bætt skipulag íþróttastarfsins hefur gert starfið faglegra, markvissara og aðgengilegra.
  • Samhliða mikilli fjölgun iðkenda var tryggt aðgengi að þéttari æfingatímum með breyttu skipulagi í Hraunkoti, sem hefur aukið afköst í æfingum.

Íþróttastarfið er nú orðið einn af burðarásum Keilis – starf sem þjónar kylfingum á öllum getustigum, skapar góða ­kylfinga og styrkir Keili sem öflugt íþróttafélag.

Þjálfarateymið okkar á heiður skilið fyrir gott og öflugt starf.

Starfið – byggt á öflugri liðsheild

Við bættum við nýjum starfsmönnum, kvöddum einstaklinga sem hafa lagt ómetanlegt framlag í áratugi og styrktum stoðir klúbbsins:

  • Guðbjartur Ísak ákvað að ljúka sínum farsæla starfsferli hjá okkur í byrjun árs – við þökkum honum innilega fyrir framlag sitt .
  • Nýr vélvirki, Sveinn Ingi Nilsen, hóf störf – kemur til okkar með 40 ára reynslu.
  • Við endurheimtum Chris Elrick – einn reyndasta vallarstarfsmann landsins – sem mun halda áfram að gera ótrúlegustu hluti í komandi verkefnum á vellinum.

Starfsmennirnir okkar hafa staðið vaktina allan veturinn og allt sumarið – og það sést á vellinum, í framkvæmdum, í þjónustunni og í upplifun félagsmanna.

Vellirnir – Golfsumarið 2025 eitt það annasamasta

Vallarstjórinn lýsir þessu ári einfaldlega sem einu stærsta og annasamasta sumri sem starfsmenn hafa upplifað – og þar var Íslandsmótið 2025 hápunkturinn .

Sumarið einkenndist af:

  • Ótrúlegu maíveðri – sögulegum hitatölum sem hjálpuðu gróandanum að springa fram fyrr en oft áður .
  • Árangursríkri endurheimt flatanna sem urðu fyrir sjógusu í apríl.
  • Mikilli sáningu og sandi á brautir í hrauninu – verkefni sem er nú farið að skila frábærum árangri.
  • Stöðugum umbótum á teigum og gönguleiðum – þar sem teknar voru í notkun nýjar hybrid mottur með glæsilegum árangri .

Á Sveinskotsvelli hélt uppbyggingin áfram og þar er vinnan í fullum gangi við ný teigasett – markmiðið er skýrt: Sveinskotsvöllur á að verða besti 9 holu völlur landsins .

Íslandsmótið í golfi 2025 – stórviðburður sem lyfti Keili upp á nýtt stig

Það verður seint gleymt hvernig Hvaleyrarvöllur skartaði sínu fegursta í beinni sjónvarpsútsendingu í 14 klukkustundir, þar sem yfir 38.000 áhorfendur fylgdust með Íslandi í beinni frá Hafnarfirði .

Lykilatriði:

  • Rúmlega 120 sjálfboðaliðar unnu óeigingjarnt starf – sem gerði mótið mögulegt .
  • Fanzone og Risaskjár settu ný viðmið fyrir Íslandsmót
  • Mikið hrós frá kylfingum og gestum – og frá RÚV sem sýndi völlinn og mótið í hæsta gæðaflokki.

Það má sannarlega segja að þessu verkefni loknu hafi klúbburinn stækkað um nokkur númer.

Félagsstarf – hjartað í Keili

Þetta ár sýndi enn á ný að Keilir er ekki aðeins golfvöllur – heldur lifandi samfélag. Samfélag ýmissa spilahópa og einstaklinga sem koma saman reglulega, njóta samveru hvors annars og spila golf.

Kvennastarfið

  • Yfir 120 konur tóku þátt í miðvikudagsmótaröðinni og 160 keppendur í Opna Icewear kvennamótinu.
  • Haustferðin var fjölmennari en nokkru sinni fyrr – tæplega 100 konur.

65+ hópurinn

  • 85 kylfingar, 234 hringir og mikil þátttaka í sjö mótum – raunverulegt blómaskeið hjá þessum hópi .
  • Göfugt samstarf við GKG og skemmtilegar heimsóknir á báða velli.

Annað félagsstarf

Hreinsunardagurinn, Bændaglíma, Meistaramót, Skötuveisla, Jólahlaðborð – og svo ótalmargt fleira. Þetta eru viðburðir sem binda okkur saman og skapa anda sem erfitt er að lýsa – en afskaplega gaman að vera hluti af.

Hraunkot – tæknivæddasta æfingasvæði landsins

Við getum verið þakklát fyrir þessa einstöku aðstöðu sem aðeins nokkrir klúbbar á landinu geta boðið félögum sínum. Þar er:

  • Upphitað æfingaskýli með Trackman í öllum básum þar sem hægt er að spila Hvaleyriarvöll og fleiri velli eins og í golfhermi.
  • Innanhúss púttflöt, golfhermar, leikir og keppnir – og Hvaleyrarvöllur í hermi.
  • Notkun í hæstu hæðum – sem sýnir hversu mikilvæg þessi fjárfesting er, en boltasala hefur og notkun svæðisins hefur meira en tvöfaldast á síðustu tveimur árum.

Samfélagsmiðlar og samskipti við félagsfólk

Það hefur sjaldan verið jafn lifandi umfjöllun um klúbbinn á netinu.

  • 17 greinar birtar samkvæmt birtingaráætlun stjórnar árið 2025
  • Ráðinn ungur samfélagsmiðlasérfræðingur yfir sumarið.
  • Fylgjendum fjölgaði um 17% – og eru nú yfir 5.000 á Instagram og Facebook.

Þetta skiptir máli – sýnileiki styrkir ímynd, fagmennsku og tengsl við samfélagið.

Framkvæmdir og mannvirki

Árið 2025 markaði fyrsta fulla árið þar sem leikið samkvæmt endanlegri hönnun sem lagt var af stað í árið 2017. Seinni hluti vallarins hefur tekið algerum breytingum og eru nú álitnar af félagsmönnum mun áhugaverðari en hraunið góða. Vissulega er fólk að ræða uppröðun brautanna en eitt er víst að við erum búin að fá alveg frábærar nýjar brautir inn á völlinn.

Þó stórframkvæmdum á vellinum sé lokið í bili var á árinu meðal annars:

  • Unnið í nýjum teigum og gönguleiðum.
  • Bætt aðkoma milli 16. og 17. brautar.
  • Byggð upp ný starfsmannaaðstaða.
  • Byrjað á nýjum teigasettum á Sveinskoti.
  • Áhaldahús endurskipulagt og gamalt rifið út á einum hreinsunardegi .

Við höfum einnig skipað vinnuhóp um nýjan golfskála – verkefni sem mun skipta sköpum fyrir framtíð klúbbsins.

Nýr golfvöllur í upplandi Hafnarfjarðar

Nýlega skipaði Hafnarfjarðarbær framkvæmdahóp með fulltrúum Keilis og Setbergs með það markmið að finna og hefja uppbyggingu á nýju golfvallarsvæði í upplandi Hafnarfjarðar, nánar tiltekið suðaustan Stórhöfða í Snókalöndum og Óbrinnishólum. Þetta golfvallarsvæði er komið inn í vinnslutillögu Aðalskipulags 2026-2040.

Í samstarfi við Golfklúbbinn Setberg viljum við vinna með Hafnarfjarðarbæ að því að þarna verði skapað framtíðarsvæði fyrir tvo 18 holu velli, ásamt fyrirmyndar æfingaaðstöðu. Einnig viljum við í samstarfi við bæjarfélagið sækjast eftir að svæðið verði byggt upp með þeim metnaði að geta þjónað sem þjóðarleikvangur golfíþróttarinnar þá í samstarfi einnig við GSÍ og ÍSÍ.

Stjórnarstarfið – samstíga og öflugur hópur

Á starfsárinu voru haldnir 12 formlegir stjórnarfundir, auk ótal nefndafunda og vinnuhópa sem unnu linnulaust að því að þróa klúbbinn áfram.

Tinnu Jóhannsdóttir fær kærar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í stjórninni, en hún hefur undanfarin 2 ár leitt uppbyggingu og góðar breytingar í íþróttastarfinu okkar.

Einnig vil ég þakka öðrum stjórnarliðum og sjálfboðaliðum fyrir gott starf og hlakka ég til áframhaldandi samvinnu á næstu árum.

Að lokum – þakklæti, stolt og framtíðarsýn

Kæru Keilisfélagar,

Árið 2025 sýndi okkur hvað Keilir stendur fyrir: sameiginlegan metnað, gott fólk og frábæra aðstöðu. Við horfum inn í 2026 með bjartsýni, skýrri framtíðarsýn og öflugu starfi á öllum sviðum.

Ég vil þakka:

  • starfsfólki – fyrir ómetanlegt starf,
  • sjálfboðaliðum – fyrir hjartað og kraftinn,
  • nefndum og stjórn – fyrir ábyrgð og fagmennsku,
  • og ykkur félagsmönnum – fyrir stuðning, þátttöku og trú á klúbbnum.

Keilir er meira en bara golfvöllur, við erum gefandi samfélag.
Takk fyrir árið 2025 – og áfram Keilir!

Guðmundur Örn Óskarsson
Formaður Keilis.