Tilnefningar til íþróttamanns Hafnarfjarðar vegna íþrótta og viðurkenningarhátíðar fyrir árið 2025

Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Árið 2025 var áttunda tímabilið hjá Guðrúni Brá sem atvinnukylfingur en hún spilaði í 10 mótum á sterkustu mótaröð Evrópu, Ladies European Tour á árinu. Í þeim mótum sem hún spilaði í náði hún 5 niðuskurðum og var með meðalskor uppá 73.3 högg sem er hennar lægsta á ferlinum og bæting um heilt högg á hring í samanburði við fyrri tímabil á sömu mótaröð.

Ásamt þessum bætingum á erlendum mótum vann Guðrún öll mót sem hún keppti í á Íslandi 2025. Hún leiddi sveit Keilis til sigurs í Íslandsmóti Golfklúbba í fyrstu deild í fyrsta skipti í 11 ár á Akureyri í Júlí og varð síðan Íslandsmeistari í höggleik á heimavelli í Ágúst, hennar fjórði Íslandsmeistaratitill í Höggleik sem er það næst mesta í sögu kvennagolfs á Íslandi.

 

Óliver Elí Björnsson
hefur verið einn efnilegasti kylfingur Keilis síðustu ár. Óliver er búinn að vinna 3 Íslandsmeistaratitla í flokki 15-16 ára á síðustu tveimur árum, 2 holukeppnistitla og 1 íslandsmeistaratitil í höggleik en árið 2025 fékk hann silfrið í Íslandsmótinu í höggleik.
Þrátt fyrir að eiga tvö ár eftir í unglingaflokki var Óliver eini kylfingurinn sem náði niðurskurði undir 18 ára aldri á Íslandsmótinu í höggleik fullorðinna sem haldið var á Hvaleyrarvelli en Óliver var í tólfta sæti af 100 keppendum sem komust inn í mótið eftir undankeppnir.

Þá var Óliver einnig hluti af piltalandsliði Íslands sem keppti í annari deild landsliða Evrópu og kom sér upp í fyrstu deild á næsta ári með því að lenda í öðru sæti. Óliver spilaði á næst lægsta skori Íslands í höggleiknum og kom Íslandi í undanúrslit með sigri í leik sínum gegn Póllandi í bráðabana.