Ársskýrsla Íþróttastjóra

Fjöldi iðkenda

Eitt af markmiðum klúbbsins er að geta tekið á móti öllum ungmennum sem vilja að æfa golf hjá Keili. Í takt við fjölgun félagsmanna jókst iðkendafjöldi allra aldurshópa í barna, unglinga, afreks og íþróttastarfsins á milli ára.

Utan þessara æfingahópa sóttu 210 krakkar á aldrinum 6-12 ára golfleikjaskóla Keilis yfir sumartímann sem haldið er uppi af afrekskylfingum klúbbsins en þar komust færri að en vildu.

Í fyrsta skipti bættum við keppnishópum 50+ inn í Abler skráningarkerfið okkar og héldum vikulegar æfingar með þjálfara.

 

Þáttaka í mótum

Annað markmið klúbbsins er að sjá fleiri iðkendur Keilis taka þátt á mótum Golfsambands Íslands. Heildarfjöldi þáttakenda frá Keili í Íslandsmóti unglinga í höggleik var 29 árið 2025.

15-18 ára stúknaflokkurinn var sá eini sem fjölgaði hjá okkur á milli ára en miðað við núverandi aldursdreifingu æfingahópa mun fjöldi þeirra sem hefja sína þáttöku á GSÍ mótum vera meiri en þeirra sem útskrifast úr unglingaflokkum.

Á sama tíma og heildarfjöldi þáttakenda á mótaröðum 18 ára og yngri lækkaði um fjóra iðkendur á milli ára má sjá að fleiri iðkenda okkar eru að taka þátt á fullorðinsmótum GSÍ sem bendir til að hærra hlutfall iðkenda okkar er farnir að halda áfram að keppa eftir að klára unglingaflokka.

Fjöldi kylfinga Keilis á Íslandsmótum fullorðinna fór úr 30 upp í 46 á milli ára þegar talin eru bæði Íslandsmótið í holukeppni og höggleik.

Þá byrjaði klúbburinn með nýja innanfélagsmótaröð barna og ungmenna í samstarfi við Golfklúbbinn Odd þar sem 40 ungir Keiliskrakkar tóku sín fyrstu skref í keppnisgolfi á 6 mismunandi mótum yfir sumarið sem gefur vonir um aukna þáttöku á GSÍ mótum næstu árin. Mótin gengu vel og er stefnt að því að framkvæma þau á sama hátt næsta sumar.

Í samanburði við aðra klúbba má sjá að Golfklúbburinn Keilir er með þriðja stærsta fjölda keppenda allra klúbba á GSÍ mótaröðinni, næst stærsta fjölda keppenda á mótaröð 15-18 ára og jafn stóran og GR með flesta fjölda keppenda í mótum 14 ára og yngri.

Árangur

Kylfingar Golfklúbbsins Keilis unnu átta Íslandsmeistaratitla árið 2025. Þar af voru fjórir í barna og unglingastarfinu, tveir í flokkum 50+ og tveir í meistaraflokkum.

Sigrum á mótaröðum GSÍ, LEK eða WAGR fækkuðu á milli ára úr 21 í 18 á meðan fjöldi kylfinga í verðlaunasætum jókst úr 41 í 60.

Þá fjölgaði kylfingum sem náðu niðurskurði á Íslandsmótinu í höggleik úr 9 í 14 þrátt fyrir breytingar á reglugerð Íslandsmótsins 2025 sem fækkaði kylfingum sem ná niðurskurði úr 62 í 48 í karlaflokki og úr 35 í 26 í kvennaflokki.

Viðburðir

Kylfingar Keilis fóru í nokkrar utanlandsferðir á árinu 2025. Sex kylfingar fóru með landsliði Íslands til La Finca í janúar,  51 iðkandi fór í æfingaferðir Keilis til Costa Ballena og Novo Sancti Petri í lok mars, 13 afrekskylfingar fóru í keppnisferð til Aroeira í Portúgal í apríl.

Einnig kepptu 2 úr Keili með evrópulandsliði pilta á Zala í Ungverjalandi og tvær fóru með öldulandsliði kvenna til Pula á Spáni. Þá voru nokkrir kylfingar sem ferðuðust á eigin vegum til að keppa á mótum erlendis en þar er helst að nefna Óliver Elí Björnsson sem sigraði á Junior International Championship í Oman.

Hér á landi fóru kylfingar Keilis í margar skemmtilegar ferðir um land allt. Tíu krakkar úr Keili fóru á fyrstu Golfhátíðina sem haldin var á Akranesi í byrjun júní. Sveitir Keilis kepptu á Íslandsmótum Keilis frá 12 ára og yngri upp í 65 ára og eldri víðsvegar um landið en það voru kvennasveitir meistaraflokks og 50+ og piltasveit 18 ára og yngri komu heim með Íslandsmeistaratitla frá Akureyri, Vestmannaeyjum og Hellu.

Viðburðir sem voru haldnir hér hjá Golfklúbbnum voru glæsilegir. Hvaleyrarbikarinn var haldinn á Hvaleyrarvelli í byrjun maí en mótið er orðin fastur liður á mótaröð þeirra bestu. Mótið er með takmörkuðan þáttakendafjölda og umgjörð í hæsta gæðaflokki í Íslensku keppnisgolfi. Meistaramót Keilis heppnaðist vel í öllum aldursflokkum og nýjir klúbbmeistarar voru krýndir í Meistaraflokki karla og kvenna. Hápunktur Íslenska golfsumarsins var hér á Hvaleyrinni þegar við héldum Íslandsmótið í Golfi með glæsibrag. Til að enda golfsumarið 2025 voru uppskeruhátíðir íþróttastarfsins en 90 börn og unglingar sem stunda golf hjá Keili mættu á Álfagaldur í byrjun september og 32 Meistaraflokkskylfingar kepptu um Riddarann í septemberlok.

Breytingar í íþróttastarfinu

Aldrei hafa jafn margir félagsmenn, kúnnar golfkennara og gestir sótt æfingaraðstöður klúbbsins í jafn miklu mæli sem færir klúbbnum aukin tækifæri og nýjar áskoranir. Stjórn Keilis samþykkti í september að setja af stað tilraun fyrir nýtt skipulag æfinga íþróttastarfsins veturinn 2025-2026 til þess að tryggja aðgengi allra þeirra sem sækja æfingar í Hraunkoti. Í því fellst að öll innanhús stuttaspilsaðstaðan í Hraunkoti ásamt Nýja-skýlisins verða tekin undir æfingar frá 16:00 – 19:00 alla mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá 1. nóvember til 1. apríl en áður var starfið með afnot af helming aðstöðunnar frá 15:00 – 21:00 sömu daga.

Með þessari breytingu tryggjum að hægt sé að taka á móti öllum iðkendum sem skráðir eru í íþróttastarfið á skipulagðar æfingar þar sem þau fá að æfa alla hluti leiksins með viðeigandi hlutfalli iðkenda og þjálfara á tímum sem henta iðkendum starfsins og/eða foreldrum þeirra. Aðrir kostir þessara breytinga eru að iðkendur fá fleiri endurtekningar á hverri mínútu, æfingar lengjast úr 100 mínútur í 140 mínútur í almennri þjálfun, allar æfingar fylgja nú tímaseðlum Afreksþjálfara Keilis og vinnutímar þjálfara í íþróttastarfinu er stórbætt.

Aukin áhersla verður sett á styrktarþjálfun en búið er breyta fyrrum fundarherberginu í Hraunkoti í styrktaraðstöðu þar sem öll styrktarþjálfun klúbbsins mun fara fram. Nú höfum við valkost um að halda styrktaræfingar fyrir iðkendurna okkar á minni kostnaði og í meira samræmi við aðra þjálfun en við höfum getað gert hingað til.

Árið 2026 ætlum við að bjóða iðkendum okkar meira en einn valmöguleika til að æfa golf hjá Keili. Við viljum að allir iðkendur okkar finni sína leið til að stunda íþróttina á sínum eigin forsendum í Golfklúbbnum Keili. Samhliða því er stefna íþróttastarfsins að bjóða þeim sem stefna hátt uppá golfþjálfun í hæsta gæðaflokki á Íslandi.

Áfram Keilir!

Birgir Björn Magnússon

Íþróttastjóri Keilis