Mótahald og skemmtanir

Mótahald sumarsins var með svipuðum dúr og undanfarin ár. Alls voru haldin 17 mót á Hvaleyrarvelli á móti 16 í fyrra og munar þar um Íslandsmótið í golfi

Jónsmessan fór fram 21. júní og var líkt og áður eitt af skemmtilegustu viðburðum ársins. Mótið hefur lengi verið þekkt fyrir léttleikann og þá áherslu að skapa ánægjulega stemningu og styrkja vinabönd félagsmanna. Mótið varð fljótt uppselt, alls tóku þátt 100 manns og komust færri að en vildu.
Að loknum golfhringnum tók við frábær stemning í félagsheimilinu, þar sem Hrefna sá um ljúffenga grillveislu og Halli Melló hélt gleðinni gangandi fram á kvöld með lifandi tónlist og skemmtun.

Meistaramót Keilis fór fram dagana 6-12 júlí. Alls tóku 365 manns þátt í 27 flokkum. Misjafnt veður var á meðan mótinu stóð en því lauk í blíðskaparveðri á laugardeginum.

Hvaleyrarbikarinn átti stórafmæli í sumar en þetta var 10. árið sem við höldum þetta frábæra mót. Mótið var haldið um mánaðarmótin maí/júní sem er óvenju snemmt, var það fært til að koma Íslandsmótinu fyrir seinni part sumars.
Mótið er partur af “stóru fjóru” mótunum á GSÍ mótaröðinni þar sem allir sterkustu kylfingar landsins mætast. Góð og mikil reynsla hefur skapast í kringum þetta mót á 10 árum og umgjörð keppenda verður betri með hverju ári sem líður

Lokahnykkurinn í mótahaldi sumarsins var sjálf Bændaglíman. Bændur sumarsins voru þau Heiðar Bergmann Heiðarsson og Sigrún Einarsdóttir. Þau voru heldur betur búin að vinna heimavinnuna sína og settu fyrir búningaþema ásamt hinum ýmsu þrautum sem kylfingar þurftu að leysa út á velli. Að golfi loknu var gætt sér á kræsingum úr eldhúsinu og síðan var sungið og trallað inn í nóttina.