Golfsumarið 2025
– Skýrsla vallarstjóra
Það er óhætt að segja að golfsumarið 2025 verði minnst sem eitt af stærri og annasömustu sumrum síðustu ára fyrir starfsmenn golfvallarins, þar sem Íslandsmótið var hápunktur fyrir okkur vallarstarfsmenn.
Opnun Hvaleyrarvallar var með breyttu sniði frá undanförnum árum. Hreinsunardagur var haldinn 4. maí, en opnunin sjálf fór ekki fram fyrr en 10. maí. Stóra verkefnið í ár var án efa að rífa niður kaffistofu starfsmanna í áhaldahúsinu. Það var ótrúlegt að sjá kraftinn hjá þeim sem mættu með kúbein og skrúfvélar; kaffistofan og allt rusl sem fylgdi henni hvarf á nokkrum klukkustundum. Ásamt því að vinna í áhaldahúsinu var týnt rusl á vellinum og í umhverfi hans og skáli þrifinn að innan sem utan. Það er ótrúlegt hvað mikið gerist á svona degi og við erum afar þakklát þeim sem mættu.
Vellirnir okkar komu heilt yfir nokkuð vel undan vetri, fyrir utan fyrstu þrjár brautirnar á Hvaleyrarvelli sem fengu ansi góða gusu af sjó og salti yfir sig í apríl, á tíma sem var frekar viðkvæmur fyrir grasið. Þetta varð til þess að við ákváðum að halda annarri flötinni lokaðri og spila á vetrarflöt til 14. júní. Þessi rúmlegi auka mánuður sem flötin fékk kom sér virkilega vel og við erum afar þakklát fyrir þolinmæðina sem kylfingar sýndu okkur.
Veðrið í maí var hreint ótrúlegt; við sáum hitatölur sem við höfum aldrei séð áður í maí. Þetta hjálpaði okkur mikið við að loka þeim sárum sem voru eftir veturinn. Einnig hjálpaði þessi hiti okkur við nýsáningu á 47 teignum og gönguleiðinni á 11. braut. Sjaldan höfum við séð gras vaxa jafn hratt í maí á Íslandi.
Eftir ótrúlegan maímánuð fór aðeins að halla undan fæti í veðrinu og hitatölur fóru að líkjast því sem við erum vön að sjá á Íslandi. Þrátt fyrir það var ágætis gróandi og flestar sáningar heppnuðust vel.

Helstu verkefni júnímánaðar voru að sá og sanda flatirnar, auk þess sem við vorum dugleg að sanda brautirnar í Hrauninu. Söndun brauta í Hrauninu hefur verið verkefni síðustu þriggja ára og við höfum reynt að sanda þær tvisvar til þrisvar á ári. Það sýndi sig í sumar að þetta verkefni okkar er að skila mjög góðum árangri og verður þessu haldið áfram næstu ár.
Júlímánuður er uppáhaldstími vallarstarfsmanna ár hvert. Þetta er sá mánuður sem við erum virkilega farin að sjá árangur vinnunnar sem við leggjum inn í maí og júní. Sumarið í ár var engin undantekning. Það er kappsmál fyrir okkur að vera klárir með völlinn fyrir Meistaramót og tókst það ágætlega í ár. Þetta er vikan þar sem við mætum kl. 04:00 alla morgna, átta daga í röð, með bros á vör. Það er ótrúlegt hvað þessi vika þjappar saman starfsmennina; allir hafa sama markmið, að gera völlinn okkar sem flottastan yfir þessa viku.

Eftir Meistaramótið tók við lokaundirbúningur fyrir Íslandsmótið. Það var í ansi mörg horn að líta og ég er afar þakklátur fyrir það góða starfsfólk sem vann á golfvellinum í sumar. Allir voru tilbúnir að vinna nótt sem dag til að gera þetta að flottasta Íslandsmóti fyrr og síðar.
Eitt af verkefnunum og í raun eina breytingin frá Meistaramóti var að safna karga/röffi. Eins og flestir kylfingar tóku eftir sást lítið í röffvélina okkar eftir Meistaramót og var það einfaldlega til þess að ramma völlinn okkar betur inn og koma í veg fyrir að bestu kylfingar gætu slegið út um allt. Þetta tókst vonum framar og við vorum afar ánægð með hvernig við náðum röffinu upp. Við vorum þó dálítið lengi að ná því aftur niður í eðlilega hæð, en það tókst á endanum án þess að skilja mikið gras eftir sig út um allan völl. Við stefnum að því næsta sumar að röffið okkar verði komið aftur í svipaða mynd og við erum vön að sjá hér á Keili.
Eftir Íslandsmótið tók við frekar rólegur tími hjá okkur. Flestir sumarstarfsmenn hættu í kringum 15. ágúst og fóru í skóla. Þá var ekkert annað í stöðunni hjá okkur fastráðnu starfsmönnum en að skella sér upp á sláttuvél og reyna að viðhalda vellinum út tímabilið. Það tókst með ágætum þrátt fyrir mikla umferð á vellinum.
Í september og október hefur oft verið meira að gera í framkvæmdum. Þar sem árið í ár var frekar annasamt hjá okkur var alveg kærkomið að vera með framkvæmdir í lágmarki og byrja snemma að safna kröftum fyrir 2026 tímabilið. Við byrjuðum þó á nýju teigasetti á 9. braut á Sveinskotsvelli og nýrri akstursleið frá 16. braut uppá 17. teiga. Hvaleyrarvöllur lokaði formlega 21. október en Sveinskotsvöllur verður opinn eitthvað lengur út árið á meðan veður leyfir.
Starfsmenn
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson hætti störfum í byrjun árs eftir að hafa helgað allan sinn starfsferil golfvellinum. Við þökkum honum kærlega fyrir frábært starf og ómetanlegt framlag í gegnum árin og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.

Nýr vélvirki:
Sveinn Ingi Nilsen var ráðinn sem vélvirki. Sveinn hefur verið með smurolíu og glussa undir nöglunum í 40 ár og er afar reynslumikill á sviði vélaviðgerða.
Einnig endurheimtum við Christopher Elrick (Chris) aftur, en hann hefur síðustu ár unnið að uppbyggingu á nýju holunum í Brautarholti. Hann er virkilega fær gröfumaður sem mun nýtast okkur einstaklega vel í komandi framkvæmdum.
Auk fastamanna voru það svo þeir Bjarki Freyr Ragnarsson og Helgi Snær Björgvinsson sem unnu með okkur í vetur við uppbyggingu á nýrri starfsmannaaðstöðu.
Alls voru 19 starfsmenn á vellinum í sumar, þar af 14 með tímabundna ráðningu.
Starfsmenn með tímabundna ráðningu árið 2025 voru:
Arnór Egill Einarsson
Bjarki Freyr Ragnarsson
Hannes Ívar Ingólfsson
Haraldur Breki Davíðsson
Heiðar Bjarki Davíðsson
Helgi Marinó Kristófersson
Helgi Snær Björgvinsson
Arnór Egill Einarsson
Bjarki Freyr Ragnarsson
Hannes Ívar Ingólfsson
Haraldur Breki Davíðsson
Heiðar Bjarki Davíðsson
Helgi Marinó Kristófersson
Helgi Snær Björgvinsson
Fastráðnir starfsmenn voru:
Haukur Jónsson
Rúnar Geir Gunnarsson
Ingibergur Alex Elvarsson
Sveinn Ingi Nilsen
Christopher James Elrick
Útseld þjónusta
Útseld þjónusta klúbbsins hefur verið svipuð síðustu ár. Helstu verkefni eru umsjón með knattspyrnuvöllum í Hafnarfirði. Einnig sjáum við um að sanda alla knattspyrnuvelli fyrir Íþrótta- og tómstundarsvið Reykjavíkur að vori og gata þá að hausti. Brýningarþjónustan okkar heldur áfram að blómstra og voru brýnd 300 slátturkefli á síðasta ári fyrir aðra klúbba en Keili. Þetta verkefni heldur okkur vel við efnið yfir vetrartímann.

Nýframkvæmdir
Þrátt fyrir mjög annasamt ár var ekki slegið slöku við í framkvæmdum. Helstu framkvæmdir á Hvaleyrarvelli voru nýir teigar á 11. og 12. braut ásamt gönguleiðum. Við ákváðum að fara nýjar leiðir í gönguleiðunum og prófuðum að nota hybrid mottu sem grasið vex svo í gegnum. Þetta tókst vonum framar og verður þetta að öllum líkindum leiðin sem við munum fara í framtíðinni á vellinum. Þar sem veðrið hefur leikið við okkur í haust, fyrir utan smá snjó í október, fórum við í að laga akstursleiðina frá 16. braut og upp að 17. teigum. Þessi akstursleið reyndist kylfingum oft erfið í sumar þar sem mikill halli var á henni. Nú er búið að slétta hana og verður hún byggð upp eins og gönguleiðirnar á vellinum. Einnig var farið í ný teigasett á Sveinskoti eins og hefur komið fram hér að ofan.
Lokaorð
Það er óhætt að segja að golfárið 2025 verði lengi í minni haft. Árið einkenndist af samheldni starfsfólks og frábærum árangri á öllum sviðum. Íslandsmótið var hápunktur sumarsins og sýndi vel þann kraft og metnað sem býr í starfsfólki vallarins. Þrátt fyrir áskoranir í veðri og mikla umferð á völlunum tókst okkur að halda þeim í toppstandi og framkvæma fjölmörg umbótaverkefni.
Ég vil sérstaklega þakka öllu starfsfólki, bæði þeim sem voru með okkur tímabundið og þeim sem eru fastir starfsmenn, fyrir ómetanlegt framlag og jákvætt viðhorf. Samvinna og dugnaður ykkar gerir okkur kleift að halda áfram að bæta völlinn og þjónustuna ár frá ári.
Við horfum björtum augum til framtíðar og stefnum að því að gera næsta ár enn betra, með áframhaldandi nýjungum og vandaðri umhirðu. Takk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og hlökkum til að takast á við ný verkefni saman á komandi ári.
F.h. vallastarfsmanna
-Haukur Jónsson, yfirvallarstjóri Keilis




